144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að flestir uppi á Íslandi, ef frá eru taldir nokkrir í Sjálfstæðisflokknum, séu nokkuð sammála um að eldsmaturinn sem glaðast logaði á báli bankahrunsins á síðasta áratug hafi einmitt verið risaháir bankabónusar. Ég held sömuleiðis þegar maður skoðar þróunina á Íslandi, bæði fyrir 2010 og líka núna þegar við erum að koma upp úr afleiðingum bankahrunsins, sjáum við að það eru bankabónusarnir sem leiða líka launaskrið og skapa eðlilega ákveðin viðmið.

Með tilliti til þess að við erum skermuð af frá hinum alþjóðlega heimi, gjaldeyrishöftin og margt annað leiðir til þess að það er ekki beinlínis sérstök samkeppni erlendis um stjórnendur í íslensku fyrirtækjalífi, ég verð að minnsta kosti ekki var við það, finnst mér að við getum leyft okkur að vera mjög konservatífir, Íslendingar, varðandi bankabónusa. Ég hef átt hér athyglisverðar samræður í dag, bæði við minn eigin formann og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvernig hann vildi sjá þessu fyrirkomið við núverandi aðstæður á Íslandi.

Í annan stað langar mig til þess að spyrja hv. þingmann út í þá stjórnskipulegu þætti sem hann reifaði með athyglisverðum hætti. Þó að EFTA-löndin innan EES hafi komið sér upp ákveðnu kerfi og sammælst um það, má draga það mjög í efa, ég hef alla vega gert það úr þessum ræðustól, að eins víðtækt og það er orðið þá standist það stjórnarskrána. Í öllu falli er það þannig að stofnanir munu samkvæmt því kerfi sem hæstv. fjármálaráðherra talar um, hafa vald til þess að hlutast inn í íslensk fjármálafyrirtæki. Þessar stofnanir eru að vísu með Íslendinga innan borðs, en það eru aðrir sem geta fræðilega verið í meiri hluta sem hafa þar völd ef í odda skerst. (Forseti hringir.)

Ég spyr hv. þingmann: Telur hann að hægt sé að ganga frá þessu frumvarpi nema Alþingi (Forseti hringir.) sé búið að slá hitt í gadda?