144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hv. þm. Frosta Sigurjónsson þannig að það sem hann á við með sýndarhæfi sé í reynd það að þrotabúin, slitabúin svokölluðu sem enn eru til, séu óhæfir eigendur að íslensku bönkunum í dag. Það er það sem hann á við, er það ekki? Ég dreg þá ályktun að hann telji að það yrði skavanki í lögunum ef slíkt er ekki bannað.

Hv. þingmaður benti í ræðu sinni réttilega á hlut sem skiptir máli, þ.e. að bónusarnir geti leitt til áhættu fyrir neytendur, fyrir litla fólkið sem er að leita til bankastarfsmanna, til ráðgjafa, sem yfirleitt alltaf hugsa um bónusana sem fela í sér áhættuauka fyrir kerfið allt. Þetta er alveg hárrétt hjá honum.

Mig langar til að spyrja hann sérstaklega út í eftirlitsmennina. Er það ekki freistnivandi að sá sem á að hafa eftirlit skuli líka fá kaupauka? (Forseti hringir.)