144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:01]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Svarið er í tvennu lagi varðandi hinn mikla hagnað bankanna og háa arðsemiskröfu. Ég verð að játa að ég er ekki alveg viss um að þessi tala, 14,7%, sé ávöxtunarkrafa Bankasýslunnar, ég hef ekki séð gögn um að það hafi verið sett fram með þeim hætti og það kæmi mér verulega á óvart ef hún er svona há.

Það er mikilvægt að átta sig á því að eftir því eiginfjárhlutfall fyrirtækis hækkar er áhættutaka þess sem á hlutafé í því fyrirtæki minni og við gerum þá minni arðsemiskröfu eftir því sem eigið féð er sterkara og ættum að gera það. Mér finnst það alveg blasa við. Ég trúi ekki öðru en að Bankasýslan hafi dregið úr arðsemiskröfu sinni eftir því sem eiginfjárhlutfallið hækkaði en ég hef ekki gögn um það hér og nú til þess að svara því. Hafi það ekki verið gert þætti mér mjög eðlilegt að stjórnvöld hlutuðust til um það.

Ég held að sem eigendur að stærsta bankanum á markaðnum, Landsbankanum, ættu stjórnvöld og Íslendingar að vera sammála um að sá banki ætti að hafa það að keppikefli að vera leiðandi í því að bjóða gott verð á markaðnum. Þá þyrftu aðrir bankar að fylgja á eftir og það mundi hafa góð áhrif á alla í landinu, bæði að vera með trausta og mikla eiginfjárstöðu. Landsbankinn ætti að vera í fararbroddi og bjóða frábær kjör, betri kjör, þá yrðu hinir bankarnir að sjálfsögðu að fylgja.

Það væri náttúrlega það langskynsamlegasta sem við gætum gert. Jafnvel þótt einnig sé skynsamlegt að hugsa um að hámarka virði bankans og selja hann síðan og lækka skuldir ríkissjóðs held ég að hægt sé að nálgast bæði markmiðin af skynsemi.