144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:05]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þetta er óvenju fjölmennur söfnuður sem ég fæ að messa hérna yfir en ég ætla nú að láta mig hafa það samt að flytja ræðuna. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Þetta er ein breyting til viðbótar við þennan lagabálk sem prentast út á 29 síðum, ef það er reynt. Þetta er breyting sem er sennilega nr. 12–14 frá því 2008, frá því að hér hrundi fjármálakerfi, og er verið að taka á nokkrum þáttum um áhættustýringu og stórar áhættuskuldbindingar, starfskjör og eigið fé o.fl.

Ég ætla fyrst af öllu að svara hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og segi einfaldlega að þetta frumvarp er ekki laust í reipunum. Hvað varðar það sem frumvarpið tekur á er nokkurn veginn tekið á því eins og hægt er. Hins vegar er þetta ekki endanleg lausn á öllum vanda fjármálamarkaðarins. Fjármálamarkaðurinn, fjármálafyrirtæki eru í rauninni ekki merkileg starfsemi. Þetta er miðlun á fjármunum í tíma, þ.e. þetta er miðlun frá þeim sem eiga afgang til þeirra sem þurfa á lánum að halda og yfirleitt er þetta miðlun frá heimilum til fyrirtækja. Heimili eru yfirleitt nettóeigendur inneigna í bönkum og fyrirtæki eru nettóskuldarar. Í hópi einstaklinga og heimila eru þá sömuleiðis lífeyrissjóðir.

Þessi miðlun getur orðið að geigvænlegu gereyðingarvopni ef illa er að farið. Það sem gerðist hér á árabilinu 2003–2008 hef ég leyft mér að kalla siðrof. Á þeim tíma var beitt nokkuð skipulega skapandi lögskýringum og skapandi reikningsskilum til þess að halda uppi afkomu banka og það hefur komið fram fyrir dómstólum að stunduð var kerfisbundin markaðsmisnotkun á hlutabréfum í bönkum. Það fór margt úrskeiðis.

Fyrst af öllu ætla ég að benda á það, og enn og aftur ætla ég að vitna í hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að ég hef í mörg ár talið að löggjöf ætti að fela í sér ítarlegar orðskýringar. Þetta frumvarp tekur á tiltölulega flóknum þáttum og ég tel að það sé æskilegt að í 1. gr. laganna, að sá kafli verði ítarlegri hvað orðskýringar varðar og sérstaklega með þessa eiginfjárauka, sem eru reyndar útskýrðir að nokkru leyti en þarfnast frekari útskýringa til þess að það fari ekkert á milli mála við hvað er átt. Orðskýringar í lögum gefa þeim aukið vægi og gildi og koma í veg fyrir það sem ég nefndi áðan, skapandi lögskýringar, þannig að það liggi fyrir um hvað málið snýst, um hvað lögin fjalla.

Annað sem hefur verið mikið til umræðu, eru kaupaukar, kaupaukakerfið. Kaupaukakerfið er annað nafn á breytilegum launum en þessi breytilegu laun virðast eiga að bera með sér lægsta þrep, sem er þá umsamin laun. Síðan er hitt þá á einhvern hátt afkomutengt, afkastatengt. Hér verð ég mjög hugsi eins og ýmsir aðrir, vegna þess að við þurfum að hafa í huga hlutafélagalög. Fjármálafyrirtæki skulu rekin í formi hlutafélags og í hlutafélögum er gert ráð fyrir ákveðinni meðferð á hagnaði. Kaupauki hlýtur að grundvallast á einhvers konar hagnaði og í hlutafélagalögum eru mjög stíf ákvæði um það hvernig ber að meðhöndla hagnað og útdeila hagnaði, þ.e. að hagnaður skal annaðhvort kyrrsettur eða greiddur út sem arður. Ef hann er greiddur út sem arður þá er það stjórnin sem gerir tillögu til hluthafafundar um að greiða hann út til hluthafa í réttu hlutfalli við hlutafjáreign, en hér virðist stjórnin geta tekið ákveðinn hluta af hagnaði og dreift til starfsmanna eftir einhverjum reglum, stundum að vísu fyrir fram ákveðnum, þannig að ég tel að kaupaukakerfi standist ekki alltaf ákvæði hlutafélagalaga. Þetta er eitt af því sem ég vona að efnahags- og viðskiptanefnd, hvar ég á sæti, taki rækilega og til gaumgæfilegrar athugunar því að það sem leiddi til þess sem kallað er hrun, þar sem var hrun fjármálakerfis, var vissulega kaupaukakerfi þar sem allt fór úr böndum og það var mjög illa skilgreint hvað varð til kaupauka hjá starfsmönnum. Ég bendi því enn og aftur á að þetta er umfjöllunarefni fyrir efnahags- og viðskiptanefnd.

Þá er komið að eiginfjárkröfum. Eigið fé fjármálafyrirtækja er náttúrlega sá ventill, sá höggdeyfir sem á að koma í veg fyrir að fjármálafyrirtæki fari í gjaldþrot og það hafi möguleika til þess að taka á sveiflum. Í fjármálafyrirtækjum hefur hingað til eða var lengi vel litið svo á að einu töpin sem fjármálafyritæki gætu orðið fyrir væru útlánatöp. Það var varla gert ráð fyrir því að það gæti orðið misferli í fjármálafyrirtækjum en misferli í fjármálafyrirtæki getur leitt til útlánatapa.

Fjármálafyrirtæki voru um tíma ekki fjármálafyrirtæki heldur fjárfestingarsjóðir. Með lagabreytingu 2010, ef ég man rétt, var reynt að draga úr þeim möguleika en engu að síður eru enn þá eftir möguleikar til þess að voga fjármálafyrirtæki það rösklega að breytingar á gengi verðbréfa, t.d. vegna vaxtabreytinga, geti leitt til falls og sömuleiðis að í litlu fjármálakerfi, sem samanstendur fyrst og fremst af þremur bönkum og nokkrum smærri fyrirtækjum, geti leitt til falls. En ég minni á það að eiginfjáraukar kunna að leiða til hækkunar á verðlagningu á þeirri þjónustu sem fjármálafyrirtæki veitir, þ.e. á vöxtum. Þá stendur í rauninni eftir hvað er til þess að draga úr áhættu. Það er til dæmis skipulegt og eðlilegt eftirlit og það að auka ekki á áhættu þannig að eiginfjárkrafnanna gerist kannski minni þörf, en þarna takast á annars vegar áhættusækni og hins vegar varúð. Þetta þarf að hafa í huga, hvernig eiginfjárkröfurnar geta leitt til kostnaðarauka, en þær geta líka vissulega dregið úr þeirri arðsemiskröfu sem eigendur fjármálafyrirtækjanna þurfa að gera.

Í þessu frumvarpi kemur orðið áhætta alloft fyrir og það er nefnilega nákvæmlega það sem fjármálafyrirtæki snýst um, það er áhættustýring. Ég held að orðið áhætta komi fyrir í núverandi löggjöf og þessari um 90 sinnum, þannig að rekstur fjármálafyrirtækis er fyrst og fremst áhættustýring. Enn og aftur erum við komin að því að draga verður úr áhættu fjármálafyrirtækja til þess að þau haldi og þjóni viðskiptavinum sínum, fjármálafyrirtæki starfi ekki vegna eigin þarfa heldur þarfa viðskiptavinanna. Það skulum við alltaf hafa í huga.

Að síðustu ætla ég að koma að því að nokkrir hafa nefnt að Neytendasamtökin hafi hvergi komið að. Það er ekki alls kostar rétt að ekki hafi verið höfð í huga neytendavernd í samningu frumvarpsins. Fjármálaeftirlitið hefur í rauninni ein stofnana lögbundið neytendaeftirlit þannig að Fjármálaeftirlitið og fulltrúar Fjármálaeftirlitsins komu þarna að. Ég vænti þess að þar hafi verið eitthvert neytendaeftirlit og auðvitað er neytendaeftirlit í heilu lagi nauðsynlegt því að fjármálafyrirtæki, eins og ég sagði áðan, starfar fyrir viðskiptavinina.

Ég vænti þess að þetta frumvarp komist til efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar og að það nái fram að ganga. Ég tel að það sé að flestu leyti til bóta en það ber að sníða kaupaukakerfinu verulega þröngan stakk, því að eins og komið hefur fram er í rauninni hvergi talað um kaupaukakerfið í nokkru einasta fyrirtæki nema fjármálafyrirtækjum að neinu marki. Það kann að vera í minni fjármálafyrirtækjum, sem hafa breytilegar tekjur, sé hægt að úthluta starfsmönnum laun á þessum breytilegu forsendum.

Við erum með annað frumvarp í meðferð núna í efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. lög um miðlun fasteigna, lög um fasteignasölu, og þar er náttúrlega mjög eðlilegt að laun fasteignasala ráðist af því hverju miðlað er. En eins og ég segi, hér er af mörgu að taka. Ég á að vísu nokkrar mínútur eftir af tíma mínum en ég tel ekkert markmið að klára hann. Ég er tilbúinn til þess að taka þetta mál til efnislegrar meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd þegar frumvarpið kemur þangað.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu að sinni.