144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:28]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði að fjármálastofnanir störfuðu ekki vegna eigin þarfa heldur vegna þarfa viðskiptavina sinna. Þannig vildum við vissulega að það væri, en þannig hefur það ekki alltaf verið. Í bland erum við þess vegna að reyna að setja þessum stofnunum ákveðið regluverk. Veruleikinn hefur verið sá að á undanförnum árum og ekki síst í aðdraganda hrunsins var tilhneigingin sú að þessar stofnanir færu að lifa eigin lífi og markmiðin í rekstrinum fóru að samtvinnast hagsmunum eigenda og stjórnenda.

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Telur hann að það regluverk sem við erum að setja hér hefði að einhverju leyti komið í veg fyrir þau vandræði sem hentu fjármálakerfið á sínum tíma? Ég vil spyrja sérstaklega út í þá bónusa sem verið er að heimila samkvæmt frumvarpinu til almennra starfsmanna upp (Forseti hringir.) upp á 100%.