144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég lagði á mig þá vinnu að telja hversu oft orðið „áhætta“ kæmi fyrir í frumvarpstextanum eingöngu. 191 sinni, þannig að ef allt verður samþykkt þá fer 191 „áhættu-eitthvað“ inn í lagatextann.

Nú er áhætta líkur á því að eitthvað verra gerist en menn reiknuðu með, við erum að tala um líkur. Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hann að það sé nægilega mikil þekking á líkindafræði í þjóðfélaginu til að eiga við alla þá mismunandi áhættu sem verið er að fjalla um; og allt frumvarpið í reynd og markmið þess er að hindra að mikil áhætta skapist og settar eru upp alls konar varnir gegn því. Telur hv. þingmaður að það sé nægur mannskapur sem kann líkindafræði til að taka á allri þessari áhættu?