144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég nenni ekki að koma inn á þessa síbylju um að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafi skipt með sér bönkunum. Ég minni á að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, fór í einn bankann og tók út spariféð sitt af því að honum hugnaðist ekki stjórnunin.

Mig langaði til að spyrja hv. þingmann um það sem hann sagði um að fólki hafi verið ráðlagt að breyta sparifé sínu í hlutafé. Þetta hefur maður heyrt dálítið mikið um, en ekkert mál hefur komið upp. Nú liggja þessi samtöl fyrir, þau eru hljóðrituð, þau eru til og það ætti að vera auðvelt að sanna að fólki hafi verið ráðlagt að kaupa hlutabréf. En einhvern veginn hefur fólk ekki haft hug eða döngun í sér til að fara í það mál, hlutaféð tapaðist að sjálfsögðu. Það kom í ljós, við skoðun sem ég lét framkvæma þegar ég var formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að 55 þús. heimili töpuðu 80 milljörðum á hlutabréfahruninu, þegar hlutabréf urðu verðlaus, og þá í 12 fyrirtækjum en aðallega í bönkunum þremur. Í einhverjum hluta af þessum tilvikum, vonandi ekki mjög stórum, hafði fólki verið ráðlagt að breyta innstæðum í hlutabréf sem áttu að vera alveg gulltryggð.

Nú er það spurning mín til hv. þingmanns: Breytir það einhverju hvort þeir sem ráðlögðu þetta voru á góðum launum eða með bónusa? Var ekki alveg eins hægt að segja við fólkið: Heyrðu, þú færð eftirvinnu í kvöld við að hringja út og fá þennan og hinn gamlingjann til að breyta sparisjóðsbókinni sinni yfir í hlutafé? Eða telur hv. þingmaður að bónusar séu aðalhvatinn á bak við það að menn hafi verið röskari?