144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um ríkisábyrgðina, ég held að það sé svolítið svipað og með aðskilnað fjárfestingarbankastarfseminnar og viðskiptabankastarfseminnar að tækifærið er núna meðan staðan er eins og hún er. Hún getur auðvitað breyst býsna hratt, m.a. getur eignarhaldið á stóru viðskiptabönkunum breyst hratt. Þá getur verið of seint að gera breytingar sem lúta að ábyrgðinni. Til dæmis gæti lítið áhættusækið fjármálafyrirtæki orðið aðaleigandi að öðrum af þessum stóru viðskiptabönkum eftir einhverjar vendingar í þrotabúunum og eiginfjárstaða þess fyrirtækis minnkað frá því sem nú er niður í það sem lögbundið er. Ætla menn þá að grípa til ráðstafana til að kippa að sér hendinni með ríkisábyrgðina þegar búið er að einkavæða viðskiptabankann og hann kominn á markað? Það verður stórum snúnara að ætla að vinda ofan af þeim bráðabirgðaráðstöfunum þegar Arion banki og Íslandsbanki verða komnir í hendur einhverra. Það er kannski eins gott að gera það núna meðan eigendurnir eru þó þrotabúin og þær aðstæður uppi að hægt er að gera þetta án þess að það hafi ófyrirsjáanlegar afleiðingar á markaði, ef það er gert yfir lengri tíma og gagnvart ákveðnum hópum í senn.