144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:22]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skelegga ræðu eins og hans er von og vísa og ég vil segja það bara í byrjun að ég er honum hjartanlega sammála um að við eigum ekki að selja Landsbankann. Ég þarf ekkert að skoða það neitt nánar, ég tel að það komi ekki til greina. Svo ætti ég að koma því hér að fyrst Landsbankann ber á góma að hér liggur alltaf fyrir þingsályktun um að fara eigi í rannsókn á einkavæðingu bankanna sem var hér fyrir tíu, tólf árum eða svo. Það væri ánægjulegt ef þingið efndi til þeirrar rannsóknar eins og hér hefur verið samþykkt.

Það verður að segja um þetta frumvarp að það er þó til þess að herða á þeim reglum sem gilda um bankana. Þess vegna finnst mér það jákvætt að fyrir liggi að ýmsu megi sennilega breyta í því. Þessir kaupaukar eða bónusar eru okkur mörgum þyrnir í augum og svo er ýmislegt sem er dálítið skrýtið þegar maður les það nákvæmlega.

Mig langar að bera það undir hv. þingmann og spyrja hvað hann telji þetta þýða. Hér segir að ekki megi tryggja bónusgreiðslur nema á fyrsta ráðningarári, þá megi borga svokallaðan ráðningarkaupauka. Þegar maður ræður mann má segja: Þú færð ráðningarkaupauka. Hvað þýðir það? Í mínum huga þýðir það að þá getur maður keypt til sín starfsmenn á fyrsta ári. Er hv. þingmaður sammála mér um túlkunina á því?