144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:24]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég er svo illa að mér í kaupaukum og bónusgreiðslum að ég veit ekki hvað þetta þýðir nákvæmlega. Ég veit hins vegar hitt að þarna er verið að setja einhverjar gulrætur fyrir menn við ráðningu. Sumir halda að með háum launagreiðslum, bónusum og öðrum slíkum „fídusum“ tryggi maður alltaf besta fólkið. Ég hef aldrei verið sammála því. Ég held að því sé meira að segja stundum öfugt farið.

Ég er ánægður að heyra að við erum sammála um að ekki eigi að selja Landsbankann. Við erum líka sammála um að það ber að framfylgja ákvörðun Alþingis um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Það er ógert og það þarf að gera það, ég er alveg sammála hv. þingmanni hvað það varðar. Ég er líka sammála hv. þingmanni um að þetta frumvarp herðir á regluverkinu, eins og ég skil það, ég þekki það ekki í þaula, en það herðir líka að sumu leyti á þeirri hugmyndafræði sem þessi nýhugsun í bankakerfinu byggir á og það er þar sem efasemdir mínar liggja.