144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:29]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög innihaldsríka ræðu. Hann drap á ýmis atriði. Til tals kom eignarhald bankanna og mér finnst það mjög áhugaverður punktur þegar hann segir góð rök vera fyrir því að ríkið ætti að eiga einn banka. Það má færa ágætisrök fyrir því og svo væri sá banki væntanlega leiðandi þegar bæta ætti kjör á markaði og sýna hinum bönkunum hvernig þjóna eigi hagkerfinu, efnahagslífinu og fólkinu í landinu.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvað honum þyki um þá umræðu að helst eigi að selja bankana erlendum aðilum, það sé voðalega gott. Ég hef um það örlitlar efasemdir. Ég tel að þeir sem fái að reka banka njóti mikillar sérstöðu, hafi í rauninni fengið leyfi til að búa til peninga með þeim aðferðum viðskiptabankar nota til að búa til peninga. Það kemur mörgum á óvart að það er ekki Seðlabankinn sem býr til lögeyrinn á Íslandi heldur eru það viðskiptabankar sem gera það bara þegar þeir veita lán. Viljum við að ágóðinn af þeirri starfsemi streymi úr landi í formi arðs til erlendra eigenda? Yrði það ekki íþyngjandi fyrir hagkerfi okkar að vera stöðugt í því, segjum að nú séu 80 milljarðar í hagnað af þessum bönkum og þá þyrftu 50 milljarðar að renna úr landi í formi gjaldeyris? Hvað finnst hv. þingmanni um þær vangaveltur?