144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[19:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni varðandi tóninn í umræðunum hér um kaupaukana, að slepptu vissu daðri hæstv. fjármálaráðherra við það. Það mátti alveg skilja á honum að honum væri ósárt um að efnahags- og viðskiptanefnd tæki sig til og rýmkaði reglurnar, það hefur greinilega ekki verið í andstöðu við hæstv. fjármálaráðherra. En að því slepptu hafa menn talað af mjög miklum samhljómi um það í dag sem er fagnaðarefni. Ég sé ekkert teikna til þess að hér myndist neinn meiri hluti fyrir því að fara að rýmka og opna þær reglur.

Hv. þingmaður nefndi líka réttilega það sem er alveg rétt og er dálítið einkenni á viðbrögðum Evrópukerfisins við vandanum, og það er þetta „haltu mér — slepptu mér“. Það er í orði kveðnu víða sagt: Jú, setjum þessu skorður en höfum svo smá útgönguleiðir, höfum undanþáguheimildir, leyfum hluthafafundi að hækka kaupaukana ef hann vill það. Ég hef bent á nokkur atriði í því efni og eitt af því er lán til starfsmannanna, annað er afturköllun starfsleyfa. Hvað við getum gengið langt í því að setja því skýrari skorður þarf að skoða, vegna þess að þótt þetta séu tiltölulega loppin tök að ýmsu leyti af hálfu evrópska kerfisins er þetta augljóslega niðurstaða málamiðlana, menn hafa greinilega tekist á. Við skulum ekki gleyma því að innan Evrópusambandsins eru ríki sem byggja mikið á alþjóðlegri fjármálastarfsemi og verja eins og þau lífsins geta kúltúrinn í þeim geira. Þar erum við með Lúxemborg og þar erum við með Bretana (ÖS: Liechtenstein.) og Liechtenstein og auðvitað stutt í Sviss. En Ísland getur að sjálfsögðu sett stífari reglur í þeim efnum. Þær þurfa að vera málefnalegar, við þurfum að undirbyggja þær og hafa sannfæringu fyrir því að þær séu ekki bersýnilega ósanngjarnari í garð stofnana okkar, en við höfum fullt vald og leyfi til þess. Það held ég að sé alveg ljóst.