144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er sannarlega tímabært að Alþingi taki upp alvörumál. Eins og þinginu er kunnugt um þá ber Alþingi ábyrgð á lífríki Þingvallavatns og ekki síst þeirrar skepnu sem ég hef stundum lýst hér í þinginu sem hátindi sköpunarverksins undir norðurhjaranum, þ.e. ísaldarurriðanum. Mönnum er mætavel kunnugt um það að á síðustu 25 árum hafa reglubundið verið umræður um nauðsyn þess að endurreisa hann. Hann var kominn ákaflega tæpt og við það að deyja út. Alþingi hefur samþykkt ýmsar aðgerðir honum til verndar. Það vill svo til að á síðustu tíu árum hefur árangur þeirra smám saman verið að koma í ljós. Á síðustu tíu árum er stórurriði aftur farinn að koma fram í veiði og kannski mest síðustu tvö árin. Á síðustu tveimur árum hafa t.d. 20 punda urriðar verið reglulegir í veiðinni. Við höfum séð 25 punda, 29 punda og 30 punda urriða veiðast á síðustu tveimur árum. Það eru stærstu urriðar sem hafa veiðst í heiminum. Þetta er einstakur fiskur.

Á sama tíma hefur það líka gerst að sprenging hefur orðið í stangveiði sem almenningsíþrótt. Það á sér margar og jákvæðar skýringar. Þetta er ódýr íþrótt. Þetta er mjög heppileg sameiginleg útivera fyrir fjölskylduna. Þingvallavatn hefur ekki farið varhluta af því. Þar geta menn komið og veitt stærstu urriða í heimi nánast ókeypis, eða fyrir ákaflega lítið. Þetta hefur að sjálfsögðu skapað ákveðna hættu á ofveiði á stórurriðanum. Þingvallanefnd brást við því mjög sköruglega og setti reglur sem fólu það í sér að einungis mætti veiða hann á flugu og það yrði að veiða og sleppa. Orkuveita Reykjavíkur tók upp sama fyrir sínum löndum. Við höfum samt sem áður séð það að ofstopamenn hafa farið og gengið berserksgang í vatninu, drepið á annan tug og kannski í ákveðnum tilvikum mun meira en það. Að sjálfu leiðir að það er hægt að stemma stigu við vexti urriðans nema þær reglur sem Þingvallanefnd beitti sér fyrir verði útfærðar fyrir vatnið allt.

Erindi mitt hingað upp er til þess að skora á Þingvallanefnd að hafa frumkvæði að því innan Veiðifélags Þingvallavatns og sömuleiðis að skora á þá þrjá ráðherra (Forseti hringir.) sem málið varðar að beita sér fyrir þessu sama.