144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Umræða hefur verið um það að undanförnu að lögregluyfirvöld hafi áhyggjur af hryðjuverkaógn og telji sig jafnvel þurfa að vopnast betur eða fá forvirkar rannsóknarheimildir til þess að glíma við slíka vá. Mig langar að vekja athygli hér á því að önnur ógn er okkur miklu nærstæðari og geri það í tilefni af því að fram undan, 8. mars næstkomandi, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna í heiminum. Það er því miður þannig að heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum og stúlkum er útbreiddasta mannréttindabrot í heimi. Kvennastofnun Sameinuðu þjóðanna, UN Women, hefur ötullega barist í þessum málum allt frá stofnun. Auðvitað hefur heilmikil árangur náðst, það er alveg ljóst. Konur skipa fleiri sæti á þingum og í ríkisstjórnum og víðar heldur en nokkru sinni fyrr, en engu að síður er það staðreynd að ekkert samfélag er til á jörðinni sem ekki er þjakað af kynbundnu ofbeldi í meira eða minna mæli. Staðreyndin er sú að ríflega milljarður kvenna um heim allan hefur upplifað líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi á lífsleiðinni. Helsta dánarorsök kvenna á aldrinum 16–44 ára í Evrópu er heimilisofbeldi. Við getum ekki gert ráð fyrir því að veruleikinn á Íslandi sé mjög frábrugðinn því sem hann er í öðrum Evrópulöndum. Er það? Gleymum við ekki stundum að líta okkur nær og verðum upptekin af mögulegri utanaðkomandi hættu og sofum svolítið á verðinum gagnvart því sem gerist nánast á hverjum degi, því miður, í okkar eigin samfélagi?

Ég skora á alla sem geta lagt því lið að taka þátt í baráttu UN Women og taka þátt í hátíðahöldunum á alþjóðlegum baráttudegi kvenna á sunnudaginn 8. mars næstkomandi og leggja þessari baráttu lið. Ég held að kröftum okkar sé betur varið í því tilliti en endilega (Forseti hringir.) að óttast um of það sem gæti komið utan frá.