144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Af ýmsum ástæðum hefur eftirspurn eftir matvælum aukist, bæði í nútíð og til framtíðar, í heiminum. Það má að sjálfsögðu nefna fólksfjölgun sem eina meginástæðu, auk fleiri atriða eins og aukna hagsæld í þróunarlöndum sem leiðir meðal annars af sér hækkandi markaðsverð. En fleira kemur til því að víða þrengir að vegna skorts á landrými og vatni. Á Íslandi erum við svo ljónheppin að búa við þau lífsgæði að vatn er ekki af skornum skammti og landrými er gott. Við ræðum töluvert um það hver hin raunverulegu verðmæti eru og hvernig þau verða til. Hvar liggur eftirspurnin og hvað selst? Sem betur fer virðast flestir nú meðvitaðir um að samhengi þarf að vera á milli raunverulegrar verðmætasköpunar og hagnaðar á pappír. Grunnþörfum mannsins þarf alltaf að sinna, því hlýtur matvælaframleiðsla að vera ein grunnstoða í okkar litla hagkerfi enda virðist áhugi manna beinast í æ meira mæli að þessari undirstöðuatvinnugrein í veröldinni. Matvælaframleiðsla tengist með augljósum hætti aukinni ferðamennsku til landsins þar sem í æ ríkari mæli er gert út á matarmenningu og gott hráefni. Lítið væri nú varið í að bjóða ekki upp á íslenskar afurðir og íslenska matargerð ef hún byggðist ekki á innlendum landbúnaðarafurðum. Það er hverri þjóð mikilvægt að byggja á hefðum sínum til að þróast til framtíðar og stuðla að framþróun.

Öll ríki og ríkjasambönd sem við berum okkur saman við styðja við eigin búvöruframleiðslu með tollvernd með þeim rökum að það séu ekki hagsmunir neytenda að veikja innlenda matvælaframleiðslu með auknum innflutningi eða treysta eingöngu á innflutning matvæla. Því gera ríki með sér samninga um ákveðnar vörur. Þó eru langflestar landbúnaðarafurðir fluttar inn án tolla. Má þar nefna allt hveiti og kornvöru, pasta, hrísgrjón, sykur, matarolíu og ávexti. Þegar menn hafa fyllt tollkvóta að fullu þarf að greiða fyrir útflutning eins og til dæmis á skyri til Evrópusambandsins. Fyrir það þarf að greiða 300 kr. á kíló. Þetta virkar nefnilega í báðar áttir.