144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Í gær flutti ég þingheimi aflafréttir af miðunum allt í kringum landið þar sem smábátar tvíhlaða sama daginn, togarar og stórir línubátar mokfiska á öllum grunnum og djúpum. Í Morgunblaðinu í dag er frétt um að stærð norsk–íslenska síldarstofnsins sé ekki 3,5 milljónir tonna, eins og Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur miðað við, samkvæmt útreikningum norskra fiskifræðinga, heldur 6,2 milljónir tonna. Samkvæmt Fiskifréttum hafa norskir sjómenn og útgerðarmenn lengi dregið í efa mælingar fiskifræðinga á þessum stofni eða allt frá því að hann fór að mælast minni ár eftir ár allt frá árinu 2009. Þeir hafa talið að stofninn væri umtalsvert stærri en vísindamenn hafa álitið þar sem þeir hafa lagt til grundvallar veiðiráðgjöf vegna kvótasetningar fyrir árið 2015.

Þetta hljómar allt kunnuglega. Sjómenn og útgerðarmenn vilja veiða meira og telja að miklu meira sé af fiski í sjónum. Viti menn, vísindamennirnir féllust á að hlusta á reynslumikla sjómenn. Ekki veit ég hvort þeir voru orðnir leiðir á tuðinu, alla vega varð það úr að fiskifræðingar í Noregi og sjómenn tóku höndum saman og skipulögðu einn viðamesta rannsóknarleiðangur til þessa á norsk-íslenska hrygningarstofninum og var hann farinn á nokkrum norskum fiskiskipum. Markmið leiðangursins var að mæla hrygningarstofn síldarinnar á þann hátt sem fiskifræðingar og fiskimenn töldu bestan. Árangurinn lét ekki á sér standa, allt bendir til þess að hrygningarstofninn mælist tæpum þremur milljónum tonna stærri, það munar um minna.

Getum við Íslendingar, og þá íslenskir vísindamenn, lært eitthvað af þessu nú þegar þorksgengdin er eins og fiskimenn segja og aflatölur staðfesta? Er þá ekki kominn tími til að gefa orðum sjómanna gaum? Vorrall Hafró stendur nú yfir og bind ég miklar vonir við að niðurstöður verði í takti við veiðina hjá fiskimönnunum, annars er eitthvað mikið að. Fiskifræðingar verða að hlusta eftir röddum þeirra sem hafa umgengist Íslandsmið í tugi ára.