144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég þekki mætavel viðhorf Jóns Baldvins Hannibalssonar til Evrópumála, starfaði með honum þegar hann mælti fyrir EES-samningi hér í þessum sal. Ég get tekið undir með Jóni Baldvini Hannibalssyni um að Ísland er ekki á leiðinni í Evrópusambandið á næstunni. Hann er þar að tjá viðbrögð við tvennu, annars vegar auðvitað stefnu núverandi ríkisstjórnar sem hefur ekki á stefnuskrá sinni að halda áfram með málið og hins vegar þeirri stöðu að innan Evrópusambandsins er glímt við ýmis flókin úrlausnarefni í kjölfar fjármálakreppu.

Við erum líka að glíma við ýmis flókin úrlausnarefni í kjölfar fjármálakreppu. Sammerkt er hins vegar, held ég, hagsmunum Íslands og hagsmunum Evrópusambandsríkja að lausnin hlýtur að felast í að unnið sé að lausn á forsendum Evrópusamrunans. Evrópusamruninn hefur skilað Íslandi gríðarlegum ávinningi og íslenskt samfélag og íslenskt efnahagslíf er óþekkjanlegt í dag miðað við það sem var árið 1990. Það er athyglisvert að jafnvel fjármálaráðherra Grikklands mælir varnaðarorð við því að menn telji að lausnin geti falist í því að hætta við Evrópusamrunann og varar við hvað þá taki við, fasismi, upplausn og endalaust lýðskrum í stjórnmálum í Evrópu. Það er raunveruleg hætta í öllum löndum Evrópu, líka á Íslandi. Grundvallarleiðin áfram hlýtur að vera sú að byggja á Evrópusamrunanum og nálgast málin út frá raunverulegu hagsmunamati og mati á aðstæðum. Ekkert hnekkir því mati sem sett var fram árið 2012 af Seðlabankanum þess efnis að aðild að evrunni sé heppilegasta gjaldmiðilsumgjörðin fyrir Ísland. Það er vert að minna á það að tvö Eystrasaltsríki hafa frá því að sú skýrsla var skrifuð gerst aðilar að evrunni og árangurinn af því hefur verið mjög góður fyrir þessi ríki. Vissulega eru vandamál á Grikklandi, það voru líka vandamál á Íslandi þegar Ísland tókst á (Forseti hringir.) við erfiðleika og þurfti á neyðarlánum að halda. Við fórum í gegnum það og algjör óþarfi að vera með einhverjar hrakspár um það. Við vitum (Forseti hringir.) nákvæmlega hvernig við gerðum það, það tókst vel (Forseti hringir.) og það var litið til þess að hér var lagt upp með úrlausn á þeim vanda sem hentaði íslenskum hagsmunum.