144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli á því að umboðsmaður barna sendi innanríkisráðherra nýlega bréf um viðbrögð við afbrotum barna. Í því bréfi er meðal annars fjallað um sáttamiðlun og mikilvægi þess að hún sé í boði fyrir börn sem hafa brotið af sér. Ég tek heils hugar undir mikilvægi sáttamiðlunar. Ég hef kynnst þessari aðferðafræði af eigin raun og var að vonast til þess að notkunin væri að breiðast út. Þegar nánar er að gáð virðist hins vegar að frekar hafi dregið úr framboði á slíku úrræði á síðustu árum.

Tilraunaverkefni í sáttamiðlun hófst hér á landi árið 2006. Sáttamiðlun byggist á hugmyndafræði uppbyggilegrar réttvísi og felur í sér að leitast er við að ná sáttum milli þess sem brýtur af sér og brotaþola. Úrlausn minni háttar mála er færð til einstaklinganna sjálfra sem gefur möguleika á skjótvirkari meðferð mála. Á sama tíma er ákveðinn þungi tekinn af ákæruvaldinu. Sáttamiðlun er talin henta sérstaklega vel fyrir börn og ungmenni þar sem þau þurfa að horfast í augu við afleiðingar háttsemi sinnar og bæta fyrir brot sitt. Slíkt er almennt talið mun betur til þess fallið að hafa uppbyggileg og þroskandi áhrif en hefðbundnar refsingar. Er því ljóst að sáttamiðlun er það úrræði sem er best í samræmi við hagsmuni og réttindi barna og hefur barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna sérstaklega hvatt aðildarríki til að beita úrræðum sem byggja á uppbyggilegri réttvísi.

Umboðsmaður barna beinir spurningu til innanríkisráðherra varðandi notkun á sáttamiðlun fyrir börn á síðustu árum og um framtíðarsýn varðandi úrræðið. Mér finnst fullt tilefni til að allsherjar- og menntamálanefnd kynni sér svar hæstv. ráðherra þegar þar að kemur og leiti frekari upplýsinga ef tilefni verður til.