144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Talsvert hefur verið rætt um forvirkar rannsóknarheimildir að undanförnu í samfélaginu og hér á þingi, nú síðast undir þessum lið í dag. Mig langar einfaldlega koma því á framfæri að það er ekki þannig að forvirkar rannsóknarheimildir, verði þær styrktar og verði auknir möguleikar lögreglu til að beita slíkum heimildum, snúi aðeins að utanaðkomandi hættu, þær snúa ekki aðeins að hryðjuverkarannsóknum heldur einnig að því að stemma stigu við skipulagðri glæpastarfsemi. Þar er ein tegund brotaflokka sem við höfum ekki náð að halda nægilega vel utan um, þ.e. brot er tengjast mansali.

Við erum nokkuð á varðbergi gagnvart því þegar talað er um forvirkar rannsóknarheimildir. Engu að síður verðum við að setjast yfir það viðfangsefni og átta okkur á því hvort sú vinna sem hæstv. innanríkisráðherra hefur sagt að þegar sé hafin í ráðuneytinu við að reyna að greina hvað er nákvæmlega um að ræða, geti nýst okkur og reyna að nálgast það viðfangsefni með opnum huga. Við þurfum að kynna okkur það og skoða hvort slíkar heimildir gætu nýst okkur í baráttunni gegn mansali.

Hér var líka komið inn á það að í stað þess að ræða um forvirkar rannsóknarheimildir ættum við að ræða um heimilisofbeldi. Ég er sammála því. Við eigum að ræða um heimilisofbeldi. Við eigum að reyna að leita leiða til þess að styrkja þær heimildir sem eru í lögum til þess að taka á þeim stóra vanda. Það er gríðarlega umfangsmikið verkefni. Fyrir þinginu liggur einmitt þingmannamál um heimilisofbeldi. Allsherjarnefnd skoðaði þau mál sérstaklega á síðasta þingvetri og hefur í hyggju að styrkja löggjöfina að ákveðnu leyti hvað þetta varðar.

Ég hvet hv. þingmenn til þess að fylgjast með þeim áætlunum sem núverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, embættið, hefur uppi varðandi heimilisofbeldi, en þeim áformum var hrint í framkvæmd hjá lögreglunni á Suðurnesjum með ágætisárangri og er verið að þróa þá vinnu enn frekar.