144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

málefni geðsjúkra fanga.

[15:40]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Tilefni þess að ég ákvað að óska eftir þessari umræðu er umfjöllun Kastljóss, að minnsta kosti í tvígang á síðasta ári, um málefni fanga sem glímt hefur við það alvarlega geðröskun að hann var vistaður í einangrunarvarðhaldi í lengri tíma en hollt getur talist fyrir nokkra manneskju. Ég hef áður tekið þetta mál upp á þingi og fengið þau svör frá fyrrverandi innanríkisráðherra að verið sé að vinna í málinu. Ég átti bágt með að trúa því að það gæti gerst á okkar landi að nokkur maður væri hafður í einangrunarklefa í rúma tvo mánuði, en svo er víst. Saga þessa manns innan geðheilbrigðiskerfisins er löng og hann hefur margsinnis verið vistaður á geðdeild. Hann er haldinn miklum ranghugmyndum, hefur orðið uppvís að íkveikju á Kleppi og Litla-Hrauni og er talinn hættulegur sjálfum sér og öðrum. Hann dvaldi mánuðum saman í einangrun á Litla-Hrauni án sálfræðiaðstoðar. Geðhjálp benti á síðasta ári á að það væru engin varanleg úrræði sem biðu þessa manns þegar hann lyki afplánun en hann hefur nú verið vistaður á geðdeild. Staðreyndin er sú að svokölluð pyndinganefnd Evrópuráðsins, sem skoðar ástand fangelsa hér með nokkurra ára millibili, segir í nýrri skýrslu að ítrekað hafi verið bent á bága geðheilbrigðisþjónustu við fanga hér en ekkert hafi gerst. Umboðsmaður Alþingis hefur fært rök fyrir því í nýlegri skýrslu að þetta ástand sem er viðvarandi feli í sér mannréttindabrot. Í skýrslunni sem kom út í maí í hittiðfyrra, 2013, rökstyður umboðsmaður að sé geðsjúkur maður sem sakfelldur hefur verið fyrir refsilagabrot, vistaður í afplánunarfangelsi hér á landi kunni slík ráðstöfun að ganga nærri því að teljast brot á fyrirmælum 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, að minnsta kosti ef honum er ekki tryggð þar viðeigandi læknisþjónusta. Almennt leiðir af þessum greinum að færa ber geðsjúkan gæsluvarðhaldsfanga eða afplánunarfanga til vistunar á geðdeild á sjúkrahúsi eða á sérstakri réttargeðdeild.

Í 2. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga segir að verði til stofnun ætluð mönnum sem teljast sakhæfir en eru andlega miður sín, samanber 1. mgr., megi ákveða í refsidómi að sakborningur skuli taka út refsingu sína í stofnuninni. Svo lengi sem ekki er sett á laggirnar sérhæfð stofnun fyrir geðsjúka en þó sakhæfa afbrotamenn sem annars eru vistaðir í afplánunarfangelsi, ber fangelsisyfirvöldum hér á landi að ganga tryggilega úr skugga um það í hverju tilviki fyrir sig að fangi þoli, þrátt fyrir ástand sitt, að vera vistaður þar. Það var niðurstaða umboðsmanns fyrir tæpum tveimur árum að ekki væri útilokað að slík vistun yrði talin fela í sér ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð gagnvart þeim sem eru alvarlega geðsjúkir. Lögum samkvæmt getur Fangelsismálastofnun leyft að fangi sé vistaður um stundarsakir eða allan refsitímann á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun. Lagaheimild skortir því ekki til að flytja fanga sem sætir afplánun á heilbrigðisstofnun þar sem hægt er að veita honum þá sérhæfðu meðferð sem nauðsynleg er vegna geðrænna sjúkdóma. Það var því eindregin afstaða umboðsmanns að brýnt tilefni væri til að endurskoða fyrirkomulag geðheilbrigðisþjónustu á Litla-Hrauni. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til velferðarráðherra, innanríkisráðherra og Fangelsismálastofnunar að þegar yrðu gerðar viðhlítandi ráðstafanir til að koma geðheilbrigðisþjónustu í fangelsinu á Litla-Hrauni í það horf að ekki leiki vafi á því að þeir fangar sem þess þurfa njóti þeirrar umönnunar sem þeir eiga rétt á samkvæmt stjórnarskrá og lögum og við aðstæður sem samrýmist ástandi þeirra og þörfum.

Því er spurt: Hvað hefur verið gert í þeim efnum á þeim tæpu tveimur árum sem liðin eru frá því að skýrsla umboðsmanns var rituð? Hvert er horf þessara mála í dag? Er geðlæknir starfandi á Litla-Hrauni? Hvernig er geðheilbrigðismálum fanga á höfuðborgarsvæðinu háttað nú um mundir? Er sem sagt búið að draga lærdóm af þessu máli og gera nauðsynlegar ráðstafanir í kjölfar þeirra ábendinga sem fram komu fyrir bráðum tveimur árum?

Stærsti hluti þessa máls varðar auðvitað mannréttindi þeirra einstaklinga sem hér um ræðir. Svo er annar angi þessa máls sem ég kem kannski betur að í síðari ræðu minni hér, sem varðar almennt öryggi borgara og lögreglunnar í landinu sem þarf, eins og því miður eru sorgleg dæmi um, að bregðast við þegar það getur leitt til hættuástands.