144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

málefni geðsjúkra fanga.

[15:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir þessa mjög svo mikilvægu umræðu Það er grundvallaratriði að veikt fólk á rétt á heilbrigðisþjónustu og það á auðvitað ekki að þurfa að taka fram að það á að gilda óháð þeim sjúkdómum sem fanga hrjá. Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við gerðumst aðilar að þeim mannréttindasáttmála árið 2007 og hæstv. innanríkisráðherra vinnur að því að fullgilda hann en í honum er tekið fram að sé fatlað fólk svipt frelsi með einhverjum hætti þá skulu aðildarríkin ábyrgjast að mannréttindi séu tryggð í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og fólk hljóti meðferð sem samræmist markmiðum og meginreglum samningsins sem og að aðildarríkin skulu bjóða fram þá heilbrigðisþjónustu sem fatlað fólk þarfnast og einkum vegna fötlunar sinnar. Þetta gera íslensk stjórnvöld ekki og við erum því að brjóta mannréttindi á geðsjúkum föngum.

Það er gríðarlega alvarlegt að pyndinganefnd Evrópuráðsins hafi gert alvarlegar athugasemdir við geðheilbrigðisþjónustu fanga og það hafi ekki verið gerðar úrbætur þrátt fyrir athugasemdirnar. Það er bent á að þetta stafi m.a. af því að innan stjórnsýslunnar sé óeining um það hver beri ábyrgð á því að veita föngum geðheilbrigðisþjónustu og hvers konar þjónustu þeir eigi að fá og hver eigi að greiða fyrir hana. Þetta er auðvitað ekki boðlegt og ég vil því brýna hæstv. ráðherra til að taka myndarlega á þessum málum og koma þeim í gott horf.