144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

málefni geðsjúkra fanga.

[15:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil þakka málshefjanda kærlega fyrir að fjalla um þetta málefni sem er mjög mikilvægt að halda á lofti hér á þingi. Áður en þessar umræður hófust kynnti ég mér aðeins hvað hefur gerst síðan síðast og það hefur því miður mjög lítið gerst. Ég rak augun í frétt frá því 20. febrúar 2014, fyrir ári síðan, þar sem kemur fram að enginn geðlæknir starfi á Litla-Hrauni og hafði þá ekki gert síðasta hálfa árið. Umboðsmaður Alþingis birti drög að skýrslu í október 2013 þar sem hvatt er til ýmissa úrbóta í heilbrigðisþjónustu við fanga.

Ég vil taka undir með öðrum þingmönnum. Það er mjög mikilvægt að hinn nýi hæstv. innanríkisráðherra taki á þessum málum af festu og ef ég mætti biðja þingmennina í hliðarherbergi að hætta að trufla ráðherrann svo hann geti hlustað á ræðu mína. Ég skora á hæstv. ráðherra að setja sig vel inn í þennan málaflokk. Það þarf ekki mikið til til að laga þetta. Hér er verið að brjóta á mannréttindum hjá mjög viðkvæmum hóp af fólki og það hefur ítrekað komið fram að mannréttindi fanga eru víst ekki sömu mannréttindi og annarra og síðan skulum við ekki tala um brot á mannréttindum hjá t.d. öryrkjum. En mér finnst þetta svo dæmigert, það er svo auðvelt að horfa fram hjá grundvallarmannréttindum þegar um jaðarhóp er að ræða. Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra hefur alla burði og örugglega löngun til að laga þetta þannig að ég vil hvetja ráðherrann til dáða.