144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

málefni geðsjúkra fanga.

[16:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall kærlega fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál. Nýir vendir sópa best og ég vonast eftir því að nýr innanríkisráðherra láti til sín taka við úrlausn þessa. Ég vil líka halda til haga í þessari umræðu þeim athugasemdum sem við höfum fengið vegna ungra afbrotamanna og eins þeim athugasemdum sem umboðsmaður hefur fram að færa sem lúta að almennri heilsugæslu við fanga.

Hér er sérstaklega verið að ræða um geðsjúka fanga og þar þurfa kerfin að tala saman. Það er hins vegar grundvallaratriði að þetta er á ábyrgð fangelsismálayfirvalda, á ábyrgð innanríkisráðuneytisins, vegna þess að menn eru dæmdir til vistunar í fangelsi. Það er ekki heil hugsun í kerfi þar sem maður er vistaður í 15 ár á geðdeild með þeirri miklu geðheilbrigðisþjónustu sem þar er að fá, og gerist síðan brotlegur og er þá færður af sama ríkisvaldi á aðra ríkisstofnun í fangelsi í þrjú ár þar sem mjög takmörkuð geðheilbrigðisþjónusta er til staðar, þegar hann þarf í raun og veru, ef eitthvað er, á meiri geðheilbrigðisþjónustu að halda eftir brot sitt en áður. Þegar hann hefur lokið afplánun í fangelsi þá flytur sama kerfi sama manninn aftur inn á geðdeild þar sem hann fær miklu betri heilbrigðisþjónustu. Það getur ekki haldið áfram að vefjast fyrir kerfinu ár eftir ár og verða til þess að við fáum átölur frá pyndinganefndinni og líka umboðsmanni Alþingis. Þessu þarf nýr ráðherra að taka á og hefur hann fullan stuðning til þess úr öllum flokkum.