144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

málefni geðsjúkra fanga.

[16:11]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram, hún er mikilvæg, og þær undirtektir sem mín orð hafa fengið.

Það er rétt hjá hæstv. innanríkisráðherra að setja þarf á fót sérstaka deild innan fangelsanna eins og er annars staðar á Norðurlöndunum, það er einfaldlega þannig. Það mun kosta, það er svoleiðis, en sá kostnaður mun ekki verða okkur ofviða. Það er samstaða um það í þinginu að leysa þetta mál og við munum finna það fjármagn sem þarf í það sameiginlega.

Það þarf líka að huga að því sem gerist hjá geðsjúkum föngum eftir að afplánun lýkur. Það vantar búsetuúrræði almennt og sérstaklega fyrir þennan hóp. Það munu líka verða dýrari úrræði, það þarf meiri vöktun og það þarf utanumhald en þetta fólk eins og aðrir verður að eiga heimili, það á ekki að búa á sjúkrahúsi.

Ég vil hvetja hæstv. innanríkisráðherra til dáða í þessum efnum. Þetta er búin að vera þekkt stærð í nokkuð langan tíma og það hefur tekið of langan tíma að bregðast við þessu. Nú þarf einfaldlega að spýta í lófana og leysa þetta. Okkar leiðarljós í þessum efnum, leiðarljós samfélags okkar, sem við erum öll sammála um, er: Hver einasta manneskja er dýrmæt, og við þurfum að haga okkur með það að leiðarljósi. Þá munum við leysa þetta farsællega. Takk fyrir umræðuna.