144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

málefni geðsjúkra fanga.

[16:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og það veganesti sem ég fæ hjá þingmönnum í því erfiða viðfangsefni sem hér er við að glíma. Það er svo sannarlega þess eðlis að taka verður á því skynsamlega og ég held að þetta sé leiðin áfram, að leita leiða til þess að fá sérhæft húsnæði innan Litla-Hrauns fyrir þessa starfsemi. Ég held að það að við séum að klára fangelsið á Hólmsheiði gefi okkur líka svigrúm til þess að líta nákvæmar á þessi mál.

Ég lít ekki svo á eða ég vil ekki að það hafi misskilist í mínum orðum að það sé óeining um þessi mál, það er engin óeining á meðal okkar á vegum hins opinbera um þau. Það er bara þessi tenging sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir kom inn á áðan og fleiri hafa gert, sem þarf að vera fyrir hendi. Við erum að tengja á milli geðheilbrigðismála og síðan refsivörslukerfisins. Þetta eru ólíkir kubbar en þeir þurfa að tengjast saman í þessu verkefni og ég hef fulla trú á að við munum ná því markmiði og vonandi tekst okkur það á sæmilega þokkalegum tíma. Ég met mjög mikils þann stuðning sem ég finn úr þingsölum en hann skiptir verulegu máli þegar við höldum áfram með málið.

Aðeins varðandi almenna heilbrigðisþjónustu í fangelsum landsins, án þess að ég ætli að leggja mat á það hvort sálfræðingar eigi að vera frá Fangelsisstofnun eða hvort betra sé að það sé með öðrum hætti, þá er nauðsynlegt að fram komi að það er sálfræðiþjónusta á Litla-Hrauni tvisvar í viku. Það koma læknar á Litla-Hraun sex til átta sinnum í mánuði. Það eru hjúkrunarfræðingar á Litla-Hrauni nokkrum sinnum í viku, þannig að almenna heilbrigðisþjónustu tel ég vera í þokkalega góðu lagi. En í sérhæfðri þjónustu sem við erum að tala um hér þurfum við að standa okkur betur. Við megum ekki láta það henda að við lítum ekki til þeirra bræðra okkar sem eiga svo um sárt að binda.