144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við höldum áfram umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Þetta frumvarp felur meðal annars í sér breytingu á lögum varðandi starfsleyfi, áhættustýringu, stórar áhættuskuldbindingar, starfskjör, eignarhluti og eiginfjárauka svo eitthvað sé nefnt.

Með þessu frumvarpi er vissulega verið að styrkja regluverk fjármálakerfisins og einhver gæti sagt að ekki veitti af miðað við þann mikla skell sem þjóðin fékk þegar bankarnir lögðust á hliðina og allt efnahagslíf í landinu var undirorpið því að reyna að reisa það aftur við. Þá komu vissulega fram miklir veikleikar í okkar íslenska fjármálakerfi. Þeim veikleikum hefur enn ekki verið mætt eins og vera þyrfti til að koma í veg fyrir að slíkt gerðist aftur. Í þessu frumvarpi er verið að tala um að við séum að laga lagaumhverfi okkar að nýju regluverki Evrópusambandsins á sviði fjármálamarkaða sem byggir á hinum svokölluðu Basel-reglum eða Basel III staðli sem snýst meðal annars um eiginfjárkröfur til fjármálafyrirtækja. Þetta regluverk Evrópusambandsins er tilskipun og er ekki komin inn í EES-reglurnar sem við erum aðilar að. Það snýr að stjórnarskrá okkar að við færum eða tökum inn yfirþjóðlegt vald. Við höfum ekki heimildir til að framselja það vald. Nú er verið að koma til móts við það að reyna að setja upp strangara regluverk til að byggja fjármálakerfið upp á traustari grunni en verið hefur.

Það vekur athygli, finnst mér, að ekkert sé komið inn á það að skilja að viðskiptabanka og fjárfestingarbanka og koma þannig í veg fyrir að sú hugsanlega áhættusækni sem fylgir fjárfestingarbönkum gangi alla leið inn í hina hefðbundnu viðskiptabanka. Þegar við erum að tala um fjármálakerfið okkar, hvað fór úrskeiðis og hvernig hægt er að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur þurfum við að horfa til þess hvort ekki séu einhverjar aðrar leiðir og fleiri valkostir til sem við gætum horft til og innleitt hér á landi. Þá er ég að tala um fjármálaþjónustu. Margir hafa nefnt við mig að við Vinstri græn sem erum umhverfisvænn flokkur ættum að styðja að hér yrði banki sem sýndi samfélagslega ábyrgð með umhverfismál og sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Ég held að það væri mjög til að bæta þá flóru sem fyrir er í landinu. Við höfum þrjá stóra banka og sparisjóðina, en ég tel að sá banki yrði til bóta sem hefði það að leiðarljósi að horfa ekki bara til arðsemissjónarmiða og hárrar arðsemiskröfu fyrir hluthafa heldur sýndi líka samfélagslega ábyrgð og hefði umhverfismál efst á blaði. Í þessu sambandi langar mig að vekja athygli á þrem norrænum bönkum sem fengu náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2010, þ.e. Merkur Andelskasse, Ekobanken og Cultura Bank. Þeir hlutu verðlaun fyrir græna og sjálfbæra stefnumótun. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Bankarnir hafa verið í fararbroddi hvað varðar fjárfestingar í sjálfbærum verkefnum og byggja allt sitt starf á þessu. Öll starfsemi þeirra byggir á grænum gildum og þeir vinna að því að gera samfélagið sjálfbært. Þess vegna eru þeir fyrirmynd annarra aðila sem vinna við fjármagnsumsýslu.“

Þema náttúru- og umhverfisverðlaunanna árið 2010 var græn fjármagnsumsýsla. Þetta hljómar kannski framandi í eyrum margra, en þetta er það sem þessir bankar hafa unnið eftir og aðrir bankar geta auðvitað tekið sér til fyrirmyndar. Þessi verðlaun voru veitt norrænu fyrirtæki, stofnun, fjölmiðli eða einstaklingi sem hafði verið í fararbroddi og haft áhrif, beint eða óbeint á fjármálamarkaðinn og samþætti sem sagt sjálfbærni og umhverfismál og samfélagsábyrgð í fjármálaumsýslu. Þetta hefði kannski þótt fyrir einhverjum árum eða áratugum fjarlægt og ekki alveg fallið inn í bisnessmódelið fjármálastofnun en sem betur fer er þróunin í þessa átt. Ég tel að við Íslendingar mættum alveg taka okkur þetta til fyrirmyndar og þess vegna væri hægt að hafa slíka hvata inni í frumvarpi sem þessu sem ýttu undir þau markmið sem þarna koma fram.

Eitt sem stingur mig í þessu frumvarpi er að aftur er opnað á kaupauka en nú er notað annað orð yfir kaupauka. Í frumvarpinu er talað um starfsskilyrði og breytileg starfskjör. Mér dettur í hug að menn séu að forðast orðin kaupaukar og bónusar sem hafa vont orð á sér miðað við reynslu fyrir hrun þar sem allt óð í kaupaukum og bónusum hjá millistjórnendum og yfirmönnum fjármálafyrirtækjanna okkar. Þegar á reyndi reyndust viðkomandi því miður ekki rísa undir því að eiga rétt á háum kaupaukum eða bónusum. Ábyrgðin fylgdi því miður ekki þeim vegsauka. Árið 2010 voru settar reglur af þáverandi stjórnvöldum um að þak á breytilegum starfskjörum, við getum kallað þau bónusa eða kaupauka hjá yfirstjórnendum, yrðu aldrei hærri en 25% af föstum launum. Það hefur verið mikill þrýstingur á að hækka þetta þak, þetta virðist allt vera komið aftur í spinning í þá átt að allt eigi að fara á fulla ferð aftur í því græðgisandrúmslofti sem ríkti hér fyrir hrun. Ég tel það mikla firringu ef menn er það veruleikafirrtir að telja að almenningur í landinu horfi upp á þetta án þess að mótmæla því og gagnrýna að menn ætli aftur að fara af stað með kaupauka. Með því tel ég að fyrst og fremst sé verið að misbjóða því fólki sem býr í landinu og er að berjast fyrir bættum kjörum ef fjármálastofnanir ætla að fara út í þessa vegferð að svo skömmum tíma liðnum frá hruni. Yfir höfuð ættu menn að bjóða upp á mannsæmandi laun í þessum fyrirtækjum en elta ekki einhverjar fyrirmyndir erlendis frá í stórum einkafyrirtækjum þar sem allt gengur út á að græða á daginn og grilla á kvöldin.

Við þekkjum það að verið er að reyna að ná lægstu launum á næstu þremur árum upp í 300 þúsund sem þættu örugglega sem kaupauki bara meðalgreiðslur. Ég hugsa að þeir sem eru á toppunum í þessum fjármálafyrirtækjum líti kannski á 300 þúsundkallinn sem skiptimynt í því sambandi að það sé verið að tala um enn þá hærri fjárhæðir þegar talað er um kaupauka. Almenningur í landinu stendur frammi fyrir því að hann er að berjast fyrir því að geta lifað á 214 þús. kr. lágmarkslaunum í dag og að þau laun hækki í 300 þús. kr. á næstu þrem árum. Þarna deila menn ekki alveg kjörum í þessu þjóðfélagi. Ég held að við séum þar stödd að við ættum að reyna að læra af þeirri bitru reynslu sem hrunið var og fara að hafa eitthvert samasemmerki á milli kjara í þjóðfélaginu, auka jöfnuð og að þessi litla þjóð fari að deila kjörum saman en ekki toga í sundur eins og virðist vera stefnan varðandi þessi mál. Það stingur mig virkilega að sjá í þessu frumvarpi að verið sé að feta aftur út á þessa braut af fullum krafti.

Ég vil segja það að lokum að vissulega er verið að taka á ýmsum þáttum þó að menn gangi samt allt of varlega í þeim málum, t.d. varðandi gengistryggð lán, að fara að opna aftur á að auka vægi þeirra í útlánum gagnvart þeim sem hafa ekki tekjur í sömu mynt. Í umræðum áðan um störf þingsins vakti hv. þingmaður athygli á því, Elsa Lára Arnardóttir, að henni litist frekar illa á þetta og beindi því til samflokksþingmanna sinna í efnahags- og viðskiptanefnd að skoða sérstaklega út á hvaða braut við værum að fara varðandi það að opna aftur á gengistryggð lán miðað við þá bitru reynslu sem þjóðfélagið og lántakendur höfðu af þeim lánum eftir hrunið. Það er af ýmsu að taka. Ég held að það þurfi (Forseti hringir.) að herða regluverkið um fjármálafyrirtækin miklu meira en er komið inn á hér.