144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir framsöguna í þessu máli. Eins og kemur fram í frumvarpinu er hér verið að styrkja umgjörð og starfsemi fjármálafyrirtækja þannig að samkvæmt eðli máls ætti maður ekki að vera ósáttur við það. Það er verið að bæta eiginfjárgrunn og styrkja innra og ytra eftirlit. Á sama tíma hefur maður samt áhyggjur af því að það er líka verið að ræða um hvernig maður getur styrkt aðgengi að fjármagni þannig að ekki sé verið að stuðla að aukinni skuldsetningu heimila eins og gerðist á sínum tíma. Það sem var athyglisvert og vekur mann til umhugsunar eftir það sem á undan er gengið er spurningin hvort hér sé nægjanlega langt gengið. Mér heyrðist á hv. þingmanni að hún teldi svo ekki vera. Er þetta nægjanlegt til að tryggja að menn lendi ekki í öðru áfalli? Þá er ég líka að velta fyrir mér stöðu tryggingarsjóðs og ábyrgðum hans. Enn er munnlegt vilyrði fyrir því að ríkissjóður tryggi innstæður í íslenskum bönkum.

Ég vil gjarnan heyra um þetta tvennt, en ekki hvað síst um kaupaukana. Það var þekkt á sínum tíma að bankar fóru í afar ágenga sölu á sínum vörum eins og það heitir í bönkunum, t.d. að hringja í fólk, benda því á að það fengi ekki nægan arð fyrir peninga sína, stinga upp á því að það færði þá yfir í hlutabréfasjóði, kaupa sem sagt hlutabréf í staðinn fyrir að vera á öruggum innlánsreikningum. Margir töpuðu mjög miklu á þessu en fyrir þetta fengu menn bónus, þ.e. þeir fengu bónus fyrir að selja vöruna. Sama var hjá þeim sem seldu líftryggingar. Einn gjaldkeri tók að sér að hringja og hringja og fékk bónus á sama tíma og hann sinnti innheimtu- og afgreiðslustörfum án þess að fá bónus. Í umræðunni í gær var vitnað í að þetta kaupaukakerfi væri bara eins og í fiskvinnslunni. Ég veit að hv. þingmaður þekkir vel til þar. (Forseti hringir.) Er hún sammála um að það sé þannig?