144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar ágætu ræðu. Ég deili með henni efasemdum um að menn séu að fara rétta leið með því að gera þær breytingar sem hér eru lagðar til. Það sem angrar mig kannski mest við þetta eru eftirlitsaðilarnir, þ.e. að verið sé að taka ákvörðun um það hér að eftirlitsaðilar skuli nú falla undir bónus, reyndar takmarkaðan sem þýðir að þeir geta ekki farið upp í 100–200% eins og almennir starfsmenn en þeir geta farið upp í 25%. Mig langar aðeins að heyra hvað hv. þingmanni finnst um þetta. Eins og við höfum það í dag eru eftirlitsaðilarnir innri endurskoðun, regluverðirnir og áhættustýringin undanskilin því að vera tengdir við bónusa en núna á að breyta þessu þannig að þeir geti fengið allt að 25% eins og yfirstjórn. Þetta veldur mér áhyggjum og mig langar að heyra hvað hv. þingmanni finnst um þetta.

Þá langar mig jafnframt aðeins að heyra í hv. þingmanni vegna þess að efst á bls. 30 í greinargerðinni með þessu frumvarpi stendur að bent hafi verið á að mjög strangar íslenskar sérreglur sem við höfum haft hingað til um þessar bónusgreiðslur geti skert samkeppnisstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja. Þetta þykir mér dálítið merkilegt, sérstaklega í ljósi þess að við erum hér með gjaldeyrishöft og alls kyns umgjörð utan um íslenskan fjármálamarkað sem er kominn til af öðru en reglum sem snúa beinlínis að gjaldmiðlinum okkar. Mig langaði að heyra hvað hv. þingmaður teldi um þetta. Telur hún þetta skipta nokkru máli í því stóra samhengi?