144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Nákvæmlega, herra forseti, það er akkúrat freistnivandinn sem þetta snýst um. Alltaf þegar menn taka upp kaupaukakerfi sem auðvitað er ekkert annað en bónuskerfi þurfa menn að skoða um leið hvort það getur verið að slíkt kerfi skapi einhvers konar freistnivanda. Eins og hv. þingmaður rakti út frá þessari spurningu sem ég var að gráta við hennar öxl yfir að hæstv. ráðherra hefði ekki svarað skapar þetta vissulega freistnivanda gagnvart þeim sem eru í eftirlitshlutverkinu innan bankans. Miðað við sögu og dæmi sem meira að segja hafa verið rakin í þessari umræðu, og hv. þingmaður drap lítillega á, verður óhjákvæmilega að segjast eins og er að það er ekkert sjálfsagt að stórhækka bónusana til almennra starfsmanna, jafnvel þó að stjórnendurnir séu undanþegnir. Það skapar líka freistnivanda.

Ég ítreka bara það sem ég sagði, mér finnst ekki hægt að þessari umræðu ljúki án þess að hæstv. fjármálaráðherra svari spurningum sem til hans hefur verið beint um tvo afmarkaða þætti freistnivandans (Forseti hringir.) sem þetta skapar.