144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég er sammála því að við þær aðstæður sem núna eru og um langt árabil enn held ég að það sé rík ástæða til að ríkið fari með eignarhlutann í Landsbankanum, eigi þann banka og hann sé kjölfesta á fjármálamarkaði, ekki síst vegna þess að ekki bara á Íslandi erum við í vandræðum með fjármálakerfið okkar heldur er fjármálakerfið í heiminum í kreppu. Það er á engan hátt fyrir endann séð á henni og meðan svo er að minnsta kosti, að menn hafi ekki fundið neina aðra betri skipan, held ég að það sé farsælt og best fyrir samfélagið allt að ríkið haldi á eignarhlutnum í Landsbankanum.

Ég tel að öðru leyti um eignarhald mikilvægt að eignarhaldinu á hinum bönkunum, Arion og Íslandsbanka, verði breytt þannig að þeir séu ekki í óbeinni eigu kröfuhafanna. Ég held að mörg rök hafi hnigið að þeirri ráðstöfun á sínum tíma, til afmarkaðs tíma sem bráðabirgðalausn, en núna þurfi að skera á það. Ég tel líka koma fyllilega til greina að við slíkar breytingar stígi ríkið inn í eignarhald á þeim bönkum, tryggi að minnsta kosti að það ferli verði með þeim hætti að þeir bankar verði í dreifðu eignarhaldi og ef það verður niðurstaðan að þeir komist í einkaeign gerist það í opnu og gagnsæju ferli en ekki í samningum í bakherbergjum um að einhverjir fái þetta og einhverjir aðrir fái hitt, eins og því miður var í helmingaskiptum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á Landsbankanum og Búnaðarbankanum fyrr á þessari öld með skelfilegum afleiðingum.