144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, við eigum eftir að ráðast í þá rannsókn sem kannski skiptir mestu máli og tengist hruninu og það er einkavæðing bankanna kringum aldamótin. Þar liggur fyrir samþykkt Alþingis en við eigum eftir að hrinda henni í framkvæmd.

Ég er sammála áherslum hv. þingmanns. Hann talar um óvissuástand í fjármálakerfinu á heimsvísu almennt og mikilvægi þess að við höldum eignarhaldi á að minnsta kosti einum banka í almannaeign til að hafa sem eins konar kjölfestu í fjármálalífinu. Ég er honum hjartanlega sammála um þetta og það væri fróðlegt að heyra álit fleiri þingmanna hvað þetta snertir. Það var dapurlegt að hlusta upp á einn þingmann Sjálfstæðisflokksins hér í gær reyna að koma sér hjá því að skýra frá afstöðu sinni til þessa máls, en þetta er hlutur sem við þurfum að ræða hér (Forseti hringir.) opið í tengslum við þessa umræðu um fjármálakerfið almennt.