144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé rétt hjá þingmanninum, en ég held að það sé líka annað atriði varðandi eignarhaldið á bönkunum sem við þurfum að ræða og það er samþætting viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Ég held að það sé sérstaklega mikilvægt, og augljóslega lengur mikilvægt, að ríkið fari með eignarhald á einum viðskiptabanka sem almenningur getur þá treyst og leitað til, en fjárfestingarbankastarfsemi er svo eðlisóskyld viðskiptabankastarfsemi. Hún er áhættufjárfestingarstarfsemi og meðan hún er ekki komin á fullan skrið væri að mörgu leyti ákjósanlegt að reyna að skilja á milli hennar og viðskiptabankaþjónustunnar. Ég held að ríkið gæti fyrr sleppt hendinni af fjárfestingarbankastarfseminni og látið markaðnum hana eftir þó að ríkið héldi eignarhaldi á einum lykilviðskiptabanka til lengri tíma.