144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að reyna að halda aðeins til haga í þessari umræðu að menn fari í grundvallarumræðuna um það hvers vegna þurfi kaupaukakerfi, hvers vegna þurfi bónusa í þessari starfsemi. Mér finnst menn svolítið gefa sér að þeir verði að vera, en spurningin sé bara um hversu háir þeir megi vera eða að draga úr því að þeir séu hættulegir. Ég vil fá umræðuna um það af hverju þurfi eitthvert sérstakt kaupaukakerfi í svona þjónustu frekar en bara mjög mörgu öðru. Ég hef varla heyrt vitlausari hluti en þá þegar menn segja að af því að það eru hlutaskipti á sjó eða hópbónusar í fiskvinnslustöðvum hljóti að vera eðlilegt að það séu bónusar í bönkum. Það er gjörsamlega ósambærilegum hlutum saman að jafna. Það að samhent áhöfn á skipi sé snögg að greiða úr veiðarfærunum, blóðga fiskinn, ísa hann og ganga frá honum skapar ekki hættulega hvata fyrir einn eða neinn. Hið sama gildir um að menn séu snöggir að snyrta flök og gera það vel. Það eru algjörlega ósambærilegir hlutir við það að starfsmenn eða stjórnendur í fjármálafyrirtæki hafi persónulegan hag af því — að gera hvað? Að auka viðskiptin og hagnað. Hvernig gera þeir það? Með því að fá fleiri kúnna, með því að fá fleiri til að taka meiri lán, taka meiri áhættu. Þar erum við komin með hvatana í allt annað neikvætt, öfugt orsakasamhengi borið saman við hitt að hafa uppmælingu eða hvetjandi kerfi þar sem menn eru að framleiða vöru eða ganga frá afla.

Hv. þingmaður hefur komið dálítið inn á þetta í sínum ræðum fyrr í umræðunni og andsvörum og ég hefði gjarnan viljað heyra viðhorf hv. þingmanns til þessa, í fyrsta lagi: Hvers vegna þarf þetta yfir höfuð endilega að vera í þessari starfsemi? Í öðru lagi: Er ekki afvegaleiðandi að (Forseti hringir.) bera þetta saman við þau bónuskerfi sem við Íslendingar (Forseti hringir.) þekkjum og hafa gefist vel?