144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:25]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur. Ég tel að kaupaukakerfi, bónuskerfi, eigi alls ekki heima í fjármálafyrirtækjum og tel að bankastarfsmenn eigi bara að búa við svipað kjaraumhverfi og annað fólk á Íslandi. Almennt fær fólk greidd sín umsömdu laun og ef það á kost á því að taka yfirvinnu og hefur óskir í þá veru vinnur það lengri vinnudag. Kaupaukakerfi á að vera bundið við mjög tímabundnar aðstæður eins og ég nefndi áðan, uppgrip í sumarvinnu þar sem fólk er tilbúið að leggja mikið á sig á skömmum tíma, ég hef ekkert við slíkt að athuga og tók oft sjálfur, mér að skaðlausu, þátt í akkorðsvinnu á árum áður.

Ég tel að þetta eigi ekki við í þessu kerfi og geti hreinlega verið skaðlegt. Ég veit ekki hvort hins vegar eigi að vera einhvers konar tekjujöfnunarkerfi. Menn hafa talað um að í smáum stofnunum sem lenda í miklum hremmingum þurfi hugsanlega að lækka launin við fólk í stað þess að reka einhverja úr starfi. Slíkt hefur oft komið til framkvæmda, líka í hinu opinbera kerfi, en þá er það gert á lýðræðisgrundvelli þar sem allir taka höndum saman í þá veru.

Almennt tel ég að bónuskerfi og kaupaukakerfi eigi alls ekki heima í fjármálakerfinu, það eigi að útrýma því alveg.