144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir svörin. Ég hef einmitt velt fyrir mér bónuskerfum yfir höfuð. Ég vann eitt sinn bæði á saumastofu og í frystihúsi þar sem ég gerði uppreisn gegn þessum bónuskerfum af því að mér fannst þau verða til þess að fólk tæki sér ekki matar- eða kaffihlé. Oft var reynt að svindla á fólki með þeim bónuskerfum. Væri ekki nær að fólk fengi almennileg laun fyrir þá vinnu sem það stundar? Ég hef áhyggjur af því að það sem kemur fram í þessu frumvarpi endurspegli mikinn og aukinn ójöfnuð. Þessar bónusgreiðslur eru oft og tíðum gríðarlega háar og í engu samræmi við það sem fólk annar staðar í samfélaginu býr við.

Hefði ekki verið nær, hv. þingmaður, að fara í annars konar breytingar á fjármálakerfinu? Það hefur oft verið rætt um mikilvægi þess að aftengja hefðbundin bankaviðskipti áhættubankaviðskiptum og gerðar tilraunir til að leggja grunn að slíkum breytingum á síðasta kjörtímabili. Eigum við ekki að byrja á þessum málum á réttum enda? Það sem ég upplifi er að við erum einhvern veginn komin aftur hraðbyri, með ógnarhraða, inn í sams konar andrúmsloft og maður fann í kjölfar einkavæðingarinnar á bönkunum. Er það rétt tilfinning sem ég hef, að við séum einhvern veginn aftur að missa sjónar á því sem hefðbundin bankastarfsemi grundvallast á miðað við hvernig (Forseti hringir.) áhættufjárfestingarbankakerfi virka?