144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:33]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vék lítillega að þessu áðan og velti því upp hvort við værum þá að tala um annan hlut, eins konar launajöfnunarkerfi eða launajöfnunarhugsun sem hefur ekkert með kaupaukakerfið að gera í sjálfu sér. Auðvitað er ég tilbúinn að skoða alla hluti, en þegar upp er staðið tel ég að allt sem byggir á þessari bónushugsun sé af hinu illa. Ég tel að það sé ekki gott. Það skiptir mjög miklu máli hvaða hugsun er ríkjandi innan fjármálakerfisins, innan fjármálaheimsins. Það skiptir þar af leiðandi mjög miklu máli hvaða hvötum við erum að raða inn í það til að fá það til að starfa sem best. Einhverra hluta vegna tókst að reka hér fjármálakerfi, banka og sparisjóði, í ár og áratugi án þess að það byggði á þessum kaupaukum og bónusum, a.m.k. í sambærilegum mæli og við fengum að kynnast í aðdraganda hrunsins. Það leið reyndar ekki á löngu þar til menn fóru að viðra á nýjan leik að nú væri komið lag til að koma þessum kerfum á að nýju. Ég tel að það hafi verið mjög slæmt að stíga nokkurt skref í þá átt vegna þess að við eigum að halda þessum stofnunum fyrir utan þessa hugsun eins og nokkur kostur er. Þess vegna tel ég að það eigi að hreinsa þessa kaupauka alveg út úr lagafrumvarpinu.