144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að einkavæðing bankanna og það með hvaða hætti ákveðið var í skyndingu af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig eignarhaldið skyldi vera, þ.e. ekki það dreifða eignarhald sem þáverandi ríkisstjórn hafði löngum predikað, ásamt svo hinu að innleitt var kaupaukakerfi sem vatt upp á sig eins og snjóbolti og var eiginlega orðið fullkomlega geggjað árið 2007, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti í ræðu í gær, hafi saman verið drjúgur partur af því sem leiddi til bankahrunsins. Auðvitað komu aðrir þættir inn í það, en þetta var alveg klárlega einn af áhrifaþáttunum.

Þegar menn setja fram frumvarp af þessum toga velti ég fyrir mér hvort þeir hafi skoðað nægilega alla áhættuþætti. Frumvarpið hefur þann yfirlýsta tilgang að draga úr kerfisáhættu, en það kemur ekki fram í frumvarpinu að það eigi að draga úr áhættu gagnvart einstökum neytendum eða viðskiptavinum. Ég veit að hv. þingmaður tekur aldrei til máls um svona viðamikil frumvörp án þess að hafa lesið þau í þaula og rannsakað þannig að hann hefur án efa komist að raun um það við lestur þessa frumvarps, eins og ég, að þar kemur fram af hálfu frumvarpshöfunda að leitað var eftir samráði við Samtök fjármálafyrirtækja en ekki samtök neytenda.

Í andsvari við hv. þingmann áðan kom fram reynslusaga frá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, ein af mörgum sem við þekkjum þar sem beinlínis má halda því fram að bónusar einstakra starfsmanna, einstakra ráðgjafa, geti skapað freistnivanda þar sem freistnin stendur annars vegar um það að ráða viðskiptavinunum heilt eða búa sér til svolítinn kaupauka með því að beina honum með fjármagn sitt inn í tiltekna sjóði. Hv. þingmaður nefndi dæmi um það hér áðan. (Forseti hringir.) Hvaða ályktun dregur hv. þm. Ögmundur Jónasson af því að ekki var talað við neytendur en hins vegar rætt við Samtök fjármálafyrirtækja? (Forseti hringir.) Hvaða ályktun dregur hann af því?