144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:55]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu ræðu. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það er mikilvægt að við fáum handfastar tillögur um hvernig eigi að taka á þeim vanda sem þingmaðurinn vék réttilega að, nánast óhugnanlegar hagnaðartölur innan úr fjármálakerfinu, 30 milljarðar fyrir þjónustugjöld í hagnað og alls tæpir 100 milljarðar á einu ári, hagnaður úr fjármálakerfinu. Við þurfum að vita hvernig eigi að taka á slíku.

Einmitt af þeirri ástæðu hef ég viljað ræða málið heildstætt, ekki bara út frá þeim reglum sem kveðið er á um í þessu frumvarpi, heldur umhverfi bankanna almennt. Þess vegna langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvert álit hennar eða mat sé á spurningunni um eignarhald banka, hvort rétt sé að ríkið, við almenningur í gegnum ríkið, eigi að minnsta kosti einn banka, Landsbankann, eða hvort þingmaðurinn telji æskilegt að hann verði seldur eins og Viðskiptaráð hvetur til að verði gert. Nú hefur komið í ljós að Landsbankinn hefur skilað á milli 20 og 30 milljörðum í ríkissjóð á árinu 2014. Hvert er mat og álit hv. þingmanns á þessu efni?