144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að koma með þá yfirlýsingu að ekki er allt sem kemur frá Evrópusambandinu fullkomið og ekki heldur endilega alltaf mér að skapi. Við erum hér í efnislegri umræðu um þetta og þarna er auðvitað verið að skapa með þessari tilskipun ákveðinn ramma. Ég skal bara viðurkenna, eins og ég gerði í upphafi, að ég hef ekki lúslesið allt frumvarpið. Ég sagði það í upphafi vegna þess að ég kom bara inn á ákveðna þætti þess sem ég hef náð að fara yfir og í því efni sem ég hef náð að fara yfir hef ég ekki fundið efnisleg rök fyrir þessu. Það er kannski nokkuð sem hv. þingmaður mun fara yfir í nefndinni. Ég bíð spennt eftir að heyra menn koma með ríkari efnisrök fyrir því að gera þessar breytingar.

Svo er annað sem ég kom inn á líka í minni ræðu sem er jákvætt og ég tel til þess fallið að styrkja rammann og skýra hann, en þessir gallar eru að mínu mati það stórir að ég er alveg sannfærð um að það muni taka verulegan tíma í nefndinni að skoða þetta mál. Það væri áhugavert að heyra frá hv. þingmanni líka hvaða efnisrök hann þekki fyrir því að taka upp bónusakerfi fyrir innra eftirlit eða regluverði eða aðra sem eiga að fylgjast með því að allt fari sómasamlega fram innan bankans og menn fari ekki fram úr sér. Það getur auðvitað gerst að menn fari fram úr sér, það eru allir mannlegir, en þá verður að vera eitthvert stabílt apparat sem ekki er þátttakandi í kapphlaupinu um bónusana, er akkerið í stofnuninni og geti fylgst með því að þetta fari allt saman rétt fram.