144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að koma aðeins inn á spurningu til hv. þingmanns um tegund bankastarfsemi. Ég viðraði það í minni ræðu áðan og vakti athygli á bönkum sem fengu verðlaun Norðurlandaráðs fyrir fimm árum fyrir félagslega ábyrgð og fyrir að hafa það að meginmarkmiði að starfsemin hefði framtíðarsýn, sérstaklega varðandi fjárfestingu í sjálfbærum verkefnum. Þetta eru félagslegir bankar sem hafa skýrt leiðarljós svo ég vitni í orð eins af verðlaunahöfunum, með leyfi hæstv. forseta:

„Vöxtur er ekki markmið í sjálfu sér ef hann stuðlar ekki að heilbrigðri og samræmdri þróun jafnt í nærsamfélaginu og á alþjóðavettvangi.“

Hann segir svo:

„Bankarnir eiga að smyrja hjól efnahagslífsins en ef markmið þeirra verður einungis að græða er voðinn vís. Það hafa undanfarin ár sýnt svo um munar og hvergi eins vel og hér á Íslandi,“ bætir hann við.

Þetta er mjög umhugsunarvert og mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess hvort hann sjái fyrir sér að slíkur banki kæmi til Íslands eða að núverandi fjármálastofnanir tækju upp þá stefnu sem þessir bankar fengu verðlaun frá Norðurlandaráði fyrir á sínum tíma. Ég bæti við spurningu um hvort hv. þingmaður telji ekki sérstaklega þurfa að gæta að siðferðisreglum innan bankakerfisins vegna þeirrar hugmyndafræði og græðgi og siðleysis sem viðgengst í bankakerfinu. Ég tel þó rétt að undirstrika að það átti ekki við um alla starfsmenn bankanna, (Forseti hringir.) ég held að við verðum að halda því vel til haga hér inni.