144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir að rifja upp að það eru til mjög góð módel af því hvernig má reka banka sem þjóna samfélaginu. Ég hef skoðað aðeins hvort það sé hægt að stofna banka hérna á Íslandi, sem er lítill, og það er mjög flókið út af EES-regluverkinu. Það átti í raun stóran þátt í þeim háska sem sparisjóðirnir lentu í. Niðurstaða Alþingis eftir að hafa farið í gegnum rannsóknarskýrsluna var að þeir sem bæru höfuðábyrgð á bankahruninu væru þeir sem áttu og stjórnuðu bönkunum og sér í lagi ef maður horfir á nýlega dóma sem tengjast þessum bankamálum þar sem nokkrir helstu forsprakkar enduðu með því að fá nokkuð þunga fangelsidóma. Þess vegna hefur það valdið mér miklum vonbrigðum að við skulum eftir þetta gríðarlega hrun ekki leggja meiri áherslu á að búa til farveg fyrir banka sem maður hefði áhuga á að eiga viðskipti við. Ég get ekki fyrir mitt litla líf átt viðskipti við þessa hefðbundnu banka.

Mér finnst miður að við séum aftur að sigla á nákvæmlega sama stað og fyrir hrun og mér finnst það ekki forsvaranlegt. Það var mikið talað um það fyrir hrun þegar átti að einkavæða bankana að við ættum að fá erlenda aðila með okkur í þá vegferð. Það hefði verið frábært en því miður var því breytt á síðustu stundu og var tengt við helmingaskiptin. Það er miður og við megum ekki fara þangað aftur.