144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:46]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir þessa ágætu ræðu. Hvers vegna var hún ágæt? Jú, vegna þess að hún minnir okkur á aðdraganda hrunsins, hvað fór úrskeiðis og á hvern hátt við eigum nú að draga lærdóm af þeim brotalömum sem voru í lögum og reglum og síðan allri framkvæmd. Ég held að það hafi verið mjög gagnlegt að fá þessa áminningu inn í umræðuna nú.

Sá þáttur sem mig langaði að vekja máls á í þessu andsvari lýtur hins vegar að umhverfi fjármálakerfisins almennt, sérstaklega eignarhaldi á bönkum. Ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar að almenningur eigi í gegnum ríkið að eiga að minnsta kosti einn kjölfestubanka og að við eigum ekki að fara að kröfu Viðskiptaráðs sem nú heimtar að Landsbankinn verði seldur. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Viðskiptaráð látið þau boð út ganga að nú beri ríki og sveitarfélögum að selja eignir fyrir um 800 milljarða kr. og þar inni eru raforkufyrirtæki, hluti í Landsvirkjun og síðan Landsbankinn. Ég vildi inna hv. þingmann eftir áliti hennar á því hvort það sé ráð að selja Landsbankann eða hvort hún sé sammála mér um að mikilvægt sé að halda eignarhaldi ríkisins á honum.