144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég tók einmitt fyrir nokkrum árum þátt í að þrýsta áfram þeirri hugmynd að stofnaður yrði Besti bankinn. Því miður hafði Besti flokkurinn ekki áhuga á því en það var hugmynd sem var lögð fram á vefnum „Betri Reykjavík“ og gott að aðrir vilji beita sér fyrir breytingum eins og Þorleifur gerði fyrir síðustu kosningar. Það ætti að vera eitt af kosningamálunum fyrir næstu bæði sveitarstjórnarkosningar og þingkosningar að við hefðum fjölbreyttari banka og samfélagsbanka líka. Það er mjög mikilvægt að til séu samfélagsbankar því að það hefur sýnt sig að hagsæld þeirra skilar sér út í nærumhverfið. Ég hef fylgst mjög vel með umræðum og langtímatilraunum með þannig banka og ég mundi vilja sjá miklu meira af svoleiðis hér. Okkur vantar það alveg.