144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[19:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get tekið undir með hv. þingmanni að það liggur auðvitað beint við að sveiflujöfnunaraukinn sé ræddur í fjármálastöðugleikaráði og síðan séu teknar ákvarðanir eftir atvikum í Fjármálaeftirlitinu eða Seðlabanka um útfærslur á honum. Hvað varðar kerfisáhættuna þá get ég deilt með honum í grunninn hugmyndinni, ég er kannski ekki viss um að við eigum að skrifa það út í lögum hvernig hann eigi að vera, en við þurfum sem nefnd að fá upplýsingar um hvaða efnislegu forsendur stjórnvaldið ætlar að leggja til grundvallar um beitingu þeirrar heimildar. Það er auðvitað ekki hægt að löggjafinn sé algjörlega í þoku um það hvort eftirlitsaðilar telji stóru bankana bera með sér kerfislega áhættu eða ekki. Auðvitað hlýtur löggjafinn að hafa ýmislegt um það að segja.

Aðeins vegna þess sem hv. þingmaður rekur réttilega, það þarf sterk bein til að taka á kerfinu að þessu leyti og ég hef nú af því persónulega reynslu. Þegar ég var efnahags- og viðskiptaráðherra var staðan sú að í upphafi árs 2011 var ekkert að gerast í skuldavinnslu fyrirtækja og heimila og allir bankarnir virtust hafa ákveðið að líta svo að allir hinir bankarnir ættu að afskrifa skuldir. Síðan voru þeir allir búnir að reikna það út að efnahagslífið mundi fara hratt af stað vegna þess að skuldir yrðu afskrifaðar og þeir ætluðu allir að græða á því að hafa ekki sjálfir afskrifað skuldir. En það var auðvitað ekki þannig að neinn þeirra færi af stað fyrst allir voru búnir að ákveða að þeir sjálfir ætluðu ekki að afskrifa skuldir.

Ég sagði það opinberlega í ræðu á 50 ára afmæli Seðlabankans að ég mundi leggja til og ég teldi það fáránlegt að lækka eiginfjárkröfu á þá meðan þeir væru ekki búnir að vinna gegn þeirri kerfisáhættu sem þeir væru að kalla yfir íslenskt samfélag með því að lækka ekki skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Það var auðvitað býsna brött yfirlýsing að gefa, en hún fól í sér efnislegt mat á því að þeir væru að skapa kerfisáhættu og auðvitað efnahagsáhættu (Forseti hringir.) í landinu með því að (Forseti hringir.) hreyfa sig ekki …