144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[19:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hafið yfir vafa að lagasetning í Evrópusambandinu ræðst auðvitað af togstreitu hagsmuna og menn beita þar áhrifum sínum eins og þeir mögulega geta, bæði lobbíistar stórfyrirtækja, lobbíistar neytenda og allt þar á milli. Það er líka ljóst að það eru ólík sjónarmið milli ríkisstjórna og ekkert launungarmál að í þessu máli sérstaklega, breytingum á reglum um bankaumgjörðina, hefur breska ríkisstjórnin keyrt mjög harkalega stefnu hárra bónusa og þess að reglur gagnvart fjármálakerfinu séu eins lítið íþyngjandi og mögulegt er. Hún hefur lagst mjög hart á árarnar og barist mjög harkalega fyrir því. Niðurstaðan er auðvitað úr samningum á vettvangi Evrópusambandsins, í mörgum öðrum löndum hafa menn viljað ganga lengra í hömlum að þessu leyti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við nýtum okkur svigrúmið til þess að ákveða sjálf hversu langt á að ganga í þessu efni. Þarna er auðvitað verið að marka ytri mörk og að því leyti er hægt að fagna því að það sé þó sammæli 28 ríkja um að ekki sé gengið lengra en þetta, þó svo að ég deili þeirri skoðun hv. þingmanns að þarna sé of rúmt svigrúm.

Þetta er hins vegar mjög gott dæmi og löggjöfin að öðru leyti um fjármálakerfið á vettvangi Evrópusambandsins sem við erum að taka hér upp. Hún er afleiðing af mikilli togstreitu ólíkra hagsmuna, ólíkra viðhorfa einstakra ríkja og síðan bætist við staða Bretlands og London sem mikillar höfuðborgar fjármálaþjónustunnar og Bretar ganga mjög harkalegra erinda London í þessum efnum og jafnvel meira en Þjóðverjar elta Frankfurt.