144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

losun hafta.

[10:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það breytir ekki þeirri staðreynd að allt þetta mál er sveipað ákveðnum leyndarhjúp sem gerir að verkum að ákveðin tortryggni ríkir í garð þess sem er hugsanlega fyrirhugað. Þegar áætlun um afnám hafta er sett niður og kynnt árið 2011 er hún kynnt opinberlega þannig að almenningur hafði það að styðjast við. Við höfum heyrt að nýjar áætlanir verði gerðar eða séu í undirbúningi en það hefur engin ný áætlun verið kynnt, a.m.k. ekki opinberlega. Á meðan les almenningur um það að til að mynda útgönguskattur sé fyrirhugaður. Við fengum í gær frétt um það að InDefence-menn séu að lýsa skoðun sinni á því að útgönguskattur sem við höfum lesið um í blöðum án þess að það hafi verið staðfest af hálfu stjórnvalda sé of lágur. Umræðan um afnám hafta er öll í þessum dúr, við höfum ekkert fast að halda í þannig að ég ítreka að mér finnst mjög mikilvægt að við reynum að gera þessa umræðu upplýstari. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) hvað hann telur um þessa tillögu InDefence-manna um að útgönguskattur verði 60% hið minnsta.(Forseti hringir.) Er þetta ekki eitthvað sem þarf að ræða, til að mynda í hinni þverpólitísku samráðsnefnd sem ekki hefur komið saman síðan í desember?