144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

losun hafta.

[10:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég ítreka að ég tek undir með hv. þingmanni um að við þurfum að kynna öll skref sem við hyggjumst taka mjög rækilega en við getum ekki gert það fyrr en tekin hefur verið ákvörðun um hvað við ætlum nákvæmlega að gera. Það hefur verið kallað eftir nánari samráði við stjórnarandstöðuna á hinum pólitíska samráðsvettvangi, ég hef hlustað eftir því og við hyggjumst bregðast við því. Það breytir ekki hinu, að það er ekki hægt að opinbera allar hugsanir, öll áform, alla möguleika sem eru til skoðunar í stjórnkerfinu til að taka á vandanum samstundis. Það þjónar ekki okkar sameiginlegu hagsmunum.

Varðandi útgönguskattinn hef ég margoft tekið fram að ekki hefur verið tekin ákvörðun um útgönguskatt og þaðan af síður hef ég boðað einhverja tiltekna prósentu sem menn eru farnir að vísa til.