144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

upplýsinga- og tjáningarfrelsi.

[10:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er fyrst til að taka varðandi starfsemi þess vinnuhóps sem hv. þingmaður vísar til að sérstök fjárveiting kom í fjárlögum þessa árs til að efla þá starfsemi. Ég hafði áður gert þinginu grein fyrir að það vantaði fjármagn með þeirri þingsályktunartillögu til þess að með góðu móti væri hægt að sinna þessu viðamikla og flókna verkefni þar sem það kallar á mjög mikla sérfræðiþekkingu sem getur verið nauðsynlegt að kaupa, í það minnsta við ákveðnar aðstæður, þ.e. þjónustu til að geta sinnt henni með viðunandi hætti. Það hefur orðið breyting á formennsku í nefndinni. Það er kominn nýr formaður fyrir hana, Ása Ólafsdóttir lét af störfum en í staðinn hefur verið skipaður formaður Hörður Helgason lögfræðingur. Það er horft til þess að leitast verði við að ljúka verkefnaáætlun fyrir árið 2015 sem allra fyrst. Þrátt fyrir mannabreytingar í starfshópnum býr þessi hópur að þeirri góðu vinnu sem hefur verið unnin fram til þessa. Það eru til dæmis komin drög að frumvarpi til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nánar tiltekið um þagnarskyldu opinberra starfsmanna, og skýrsla um afnám refsingar vegna ærumeiðinga, þ.e. hvort afnema skuli refsingar vegna ærumeiðinga í XXV. kafla almennra hegningarlaga, og jafnframt hvort rétt sé að réttarúrræði vegna ærumeiðinga verði alfarið færð af sviði refsiréttar yfir á svið einkaréttar, eftir atvikum með nánari útfærslu á 26. gr. skaðabótalaga.

Þetta nefni ég hér, virðulegi forseti, ekki til að segja að þar með sé búið að ákveða að gera þetta, að þetta verði stefna, heldur er ég að lýsa því hvar vinnan stendur, hvað hefur nú þegar verið unnið.

Hvað varðar afstöðu mína til lögbannskröfu á Kastljóssþátt er það mál sem viðeigandi yfirvöld hljóta að taka afstöðu til og er ekki ástæða fyrir mig sem ráðherra að taka afstöðu til.