144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

landbúnaðarmál.

[11:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur lýst áhuga á því að gera allt að 15 ára samninga við landbúnaðinn. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sjái það ekki þannig fyrir sér að það sé skýr fyrirvari um fjárlög hvers árs bæði hvað varðar tolla og niðurgreiðslur. Þannig er skuldaniðurfærsla ríkisstjórnarinnar með skýrum fyrirvara um fjárveitingar á hverju ári. Ég spyr vegna þess að það er mikilvægt lýðræðislegt grundvallaratriði að hægt sé að kjósa á fjögurra ára fresti um tollastefnu og um framlög til einstakra atvinnugreina og að nýr meiri hluti geti breytt um stefnu. Við þekkjum það líka frá allra síðustu árum að við höfum orðið fyrir miklum áföllum í ríkisfjármálum og vitum að við þurfum að geta breytt stefnunni fyrirvaralítið ef slíkar aðstæður skapast. En sé slíkur fyrirvari vil ég segja að það getur verið góð hugmynd hjá landbúnaðarráðherranum að gera langtímasamning, sérstaklega ef um hann er sköpuð breið samstaða. Ég hygg að breið samstaða sé um að tryggja kjör bænda og að nýta, m.a. með því að draga úr tollverndinni í gagnkvæmum samningum, margvísleg sóknartækifæri sem eru í landbúnaði.

Í því sambandi vil ég spyrja ráðherra um eftirfarandi: Telur ráðherra að tollvernd fyrir kjúklingaiðnaðinn ætti að vera næstu 15 árin með svipuðum hætti eins og hún er í dag? Ég spyr vegna þess að kjúklingaiðnaðurinn getur ekki talist til hefðbundins landbúnaðar, þar er fremur um að ræða hagsmuni banka en bænda. Ég vil lýsa því sjónarmiði mínu að ég tel algerlega óhæfilegt að festa þá gríðarlega háu tolla sem eru á þessa matvöru til neytenda í sessi til langrar framtíðar. Það verður að gera greinarmun, virðulegur forseti, á landbúnaði annars vegar og því að tryggja afkomu bænda og hins vegar kjúklingaiðnaðinum og því óheilbrigða verndarumhverfi sem um hann er enn.