144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

landbúnaðarmál.

[11:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á ég að skilja þetta þannig að hæstv. ráðherra hugsi sér ekki fyrirvara um fjárlög hvers árs? Jafnvel í höfuðkosningaloforði Framsóknarflokksins gagnvart skuldugum heimilum í landinu þá telur ráðherrann rétt að hafa inni skýran fyrirvara um fjárveitingar hvers árs. Það hlýtur það sama að gilda hér, því það er auðvitað mikilvægt að fram fari kosningar um stefnuna í þessum málaflokki á fjögurra ára fresti.

Ég verð síðan að segja að ég skil ekki alveg umræðu hæstv. ráðherra um 300 kr. tollinn á skyri sem leiðir af því að við stöndum utan Evrópusambandsins, en ég er auðvitað sammála honum um að það er sárgrætilegt að við skulum standa frammi fyrir þeim takmörkunum á innflutningi, sem að mörgu leyti athafnaleysi okkar sjálfra hefur skapað, því það eru gríðarleg sóknarfæri, m.a. fyrir skyrið og ég held margar aðrar góðar íslenskar landbúnaðarvörur á evrópskum markaði.